Fara í innihald
Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Í ráðhúsinu er skrifstofa borgarstjóra og setur borgarstjórnar.

Borgarstjóri Reykjavíkur er æðsti embættismaður Reykjavíkurborgar. Borgarstjóri framkvæmir samþykktir borgarstjórnar og er yfirmaður starfsmanna borgarinnar. Hann er oftast valinn úr hópi borgarfulltrúa þó hann geti líka verið ráðinn. Núverandi borgarstjóri er Einar Þorsteinsson og tók hann við embætti 16. janúar 2024.

Tuttugu og tveir hafa gegnt embætti borgarstjóra Reykjavíkur, þar af átján karlmenn og fjórar konur.

Sögulegt yfirlit

[breyta | breyta frumkóða]
Knud Zimsen var borgarstjóri Reykjavíkur frá 1914 til 1932.

Í bæjarstjórnarlögum fyrir Reykjavík sem sett voru árið 1907 var í fyrsta sinn kveðið á um embætti borgarstjóra. Embættið var auglýst árið 1908 og sóttu tveir um stöðuna, þeir Páll Einarsson og Knud Zimsen. Páll var ráðinn til sex ára en að þeim tíma loknum ákvað hann að hætta störfum og Knud Zimsen tók við embættinu. Hann hélt því til ársins 1932. Frá árinu 1935 til 1994 komu allir nema einn af borgarstjórum Reykjavíkur úr röðum Sjálfstæðisflokksins, sem hélt lengi vel hreinum meirihluta í borginni. Í kosningunum 1994 stofnuðu þáverandi félagshyggjuflokkar (Alþýðuflokkurinn, Alþýðubandalagið, Kvennalistinn og Framsóknarflokkurinn) sameiginlegan framboðslista sem kallaður var Reykjavíkurlistinn undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Reykjavíkurlistinn bauð fram og hélt meirihluta í borginni til ársins 2006 þegar flokkarnir sem mynduðu listann (þá Samfylkingin, Vinstrihreyfingin - grænt framboð og Framsóknarflokkurinn) buðu fram undir eigin merkjum á ný. Nýtt framboð, Besti flokkurinn, sem leiddur var af Jóni Gnarr bauð fram í sveitarstjórnarkosningunum 2010 og varð stærsti flokkurinn í borgarstjórn í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi 2008. Þá mynduðu borgarfulltrúar flokksins meirihluta ásamt Samfylkingunni og varð Jón Gnarr borgarstjóri. Besti flokkurinn bauð ekki fram aftur í sveitarstjórnarkosningunum 2014 en þá varð Samfylkingin stærsti flokkurinn í borgarstjórn og tók Dagur B. Eggertsson við sem borgarstjóri.

Í dag eru í meirihluta í borgarstjórn Samfylkingin, Viðreisn, Píratar og Framsóknarflokkurinn og er Einar Þorsteinsson borgarstjóri. Í minnihluta sitja borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna, Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins.

Starf borgarstjóra felst í tveimur meginhlutverkum, annars vegar að starfa sem framkvæmdarstjóri Reykjavíkurborgar og hins vegar að koma fram sem opinber fulltrúi hennar. Iðulega er borgarstjóri jafnframt pólitískur leiðtogi meirihluta borgarstjórnar. Svo þarf ekki að vera, enda getur borgarstjóri verið ráðinn á faglegum forsendum eða verið pólitískur fulltrúi sem hefur þó ekki sérstaka leiðtogastöðu.

Hann getur tekið sæti á fundum nefndar borgarinnar og hefur þar bæði málfrelsi og tillögurétt. Einnig gegnir hann skyldum sem prókúruhafi borgarsjóðs og undirritar skjöl varðandi kaup og sölu á fasteignum, lántökur og annað sem varðar fjárhagslegar skuldbindingar og ráðstafanir eftir að borgarstjórn hefur samþykkt þær. Borgarstjóri fer líka með eignarhluta Reykjavíkurborgar í svokölluðum B-hluta fyrirtækjum.

Listi yfir borgarstjóra Reykjavíkur

[breyta | breyta frumkóða]
Borgarstjóri Skipun Lausn Flokkur
1 Páll Einarsson 7. maí 1908 1. júlí 1914 Óháður
2 Knud Zimsen 1. júlí 1914 30. desember 1932 Óháður
3 Jón Þorláksson 30. desember 1932 20. mars 1935 Sjálfstæðisflokkurinn
4 Pétur Halldórsson 20. mars 1935 8. október 1940 Sjálfstæðisflokkurinn
5 Bjarni Benediktsson 8. október 1940 4. febrúar 1947 Sjálfstæðisflokkurinn
6 Gunnar Thoroddsen 4. febrúar 1947 19. nóvember 1959 Sjálfstæðisflokkurinn
7 Auður Auðuns 19. nóvember 1959 6. október 1960 Sjálfstæðisflokkurinn
8 Geir Hallgrímsson 1. desember 1972 Sjálfstæðisflokkurinn
9 Birgir Ísleifur Gunnarsson 1. desember 1972 15. ágúst 1978 Sjálfstæðisflokkurinn
10 Egill Skúli Ingibergsson 15. ágúst 1978 27. maí 1982 Óháður
11 Davíð Oddsson 27. maí 1982 16. júlí 1991 Sjálfstæðisflokkurinn
12 Markús Örn Antonsson 16. júlí 1991 17. mars 1994 Sjálfstæðisflokkurinn
13 Árni Sigfússon 17. mars 1994 13. júní 1994 Sjálfstæðisflokkurinn
14 Ingibjörg Sólrún Gísladóttir 13. júní 1994 1. febrúar 2003 Reykjavíkurlistinn
15 Þórólfur Árnason 1. febrúar 2003 1. desember 2004 Reykjavíkurlistinn
16 Steinunn Valdís Óskarsdóttir 1. desember 2004 13. júní 2006 Reykjavíkurlistinn
17 Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson 13. júní 2006 16. október 2007 Sjálfstæðisflokkurinn
18 Dagur B. Eggertsson 16. október 2007 24. janúar 2008 Samfylkingin
19 Ólafur F. Magnússon 24. janúar 2008 21. ágúst 2008 Frjálslyndi flokkurinn
20 Hanna Birna Kristjánsdóttir 21. ágúst 2008 15. júní 2010 Sjálfstæðisflokkurinn
21 Jón Gnarr 15. júní 2010 16. júní 2014 Besti flokkurinn
(18) Dagur B. Eggertsson 16. júní 2014 16. janúar 2024 Samfylkingin
22 Einar Þorsteinsson 16. janúar 2024 Enn í embætti Framsóknarflokkurinn